Erfðanefnd landbúnaðarins

Landsáætlun um verndun erfðaauðlinda í íslenskri náttúru og landbúnaði 2019-2023

Landsáætlun erfðanefndar landbúnaðarins er nú birt í þriðja sinn en með henni er mótuð stefna erfðanefndar um varðveislu og sjálfbæra nýting erfðaauðlinda í landbúnaði sem er hlutverk nefndarinnar og er skilgreint í lögum. Starfsemi nefndarinnar er fyrst og fremst á vegum Erfðalindaseturs Landbúnaðarháskóla Íslands sem sinnir margvíslegum verkefnum í umboði erfðanefndar. Landsáætlunin er byggð á fyrri áætlun að mjög miklu leyti en einstakir kaflar hafa verið endurskrifaðir og uppfærðir eftir því sem við á.

Varðveisla erfðafjölbreytni og sjálfbær nýting erfðaauðlinda eru lykilatriði varðandi framtíð matvælaframleiðslu í landbúnaði. Erfðabreytileiki er undirstaða þess að nytjategundir geti aðlagast breyttum umhverfisaðstæðum og er jafnframt forsenda þess að hægt sé að stunda árangursríkar kynbætur til framtíðar. Í umræðu dagsins um loftslagsbreytingar og aðrar umhverfisógnir sem geta haft veruleg áhrif á framleiðslu matvæla í landbúnaði verður þetta starf sífellt mikilvægara.

Landsáætlunin nær yfir nytjaplöntur, skóg, búfé og villta ferskvatnsfiska og í öllum þessum flokkum eru tegundir og/eða stofnar sem gæta þarf að. Á Íslandi eru það ekki síst íslensku búfjárkynin sem skapa sérstöðu landbúnaðar hér á landi og þau eru því áberandi í áætluninni hverju sinni.

Töluvert hefur áunnist frá því að síðasta landsáætlun var sett fram og ber þar hæst fjölgun íslenskra geita og aukin nýting afurða af geitum. Íslenska geitin er enn í útrýmingarhættu en hættan hefur minnkað og vonandi heldur sú þróun áfram. Íslenskt forystufé hefur verið skilgreint sem sérstakt sauðfjárkyn og er einnig í útrýmingarhættu. Þar er m. a. unnið að eflingu skýrsluhalds sem er mikilvægt fyrir framtíð stofnsins. Erfðanefnd hefur einnig látið sig varða verndun villtra laxastofna í ám í ljósi aukningar á laxeldi í sjó.

Enn fremur hefur verið unnið gagnlegt starf í rannsóknum og viðhaldi á íslenskum yrkjum garð- og landslagsplantna í verkefninu Yndisgróður sem er á vegum LbhÍ.

Landsáætlun 2019-2023

Address

Hvanneyri, 311. Borgarnesi

Stay with us